149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:03]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir viðbrögð hans við máli mínu áðan, þar sem ég ræddi nauðsyn þess að fjalla mun nánar en gert er um aðdraganda, tilgang og málatilbúnað allan í kringum það að hingað var fenginn svissneskur lögmaður, sem ég leyfi mér að segja hafi hagað málflutningi sínum með þeim hætti að ekki verður betur séð en að markmiðið sé að veikja viðnámsþrótt þjóðarinnar í málinu og skapa einhvers konar tilfinningu fyrir einhverri ógn.

Ég ætla að nota tækifærið og lýsa fögnuði mínum og gleði yfir því að sjá hérna hv. formann utanríkismálanefndar og um leið að ítreka nauðsyn þess að hv. formaður taki með virkari hætti þátt í umræðum og sé hér til svara um ýmis atriði sem kalla á skýringar.