149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:09]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það veitir líklega ekki af því að lesa einfaldlega reglugerðirnar vegna þess að ég óttast að talsmenn þessa máls hafi hreinlega ekki gert það, hafi ekki kynnt sér reglugerðirnar og séu að tala fyrir máli sem þeir vita ekki út á hvað gengur. En það er kannski líka tilefni til að líta til reynslu Norðmanna, sem ég hef aðeins verið að ræða í fyrri ræðum en ekki náð að klára, en ég hyggst halda því áfram á eftir, þeir hafa einmitt það miklar áhyggjur af því að Evrópusambandið hafi vald til að tengja með t.d. sæstreng, að þrátt fyrir að Noregur sé þegar tengdur við evrópska orkukerfið sjá þeir ástæðu til að setja sérstakan lagalegan fyrirvara til að taka það fram að ekki verði fleiri tengingar, það verði ekki nýjar tengingar við Noreg án heimildar frá Noregi. Það er reyndar ekki búið að viðurkenna þennan fyrirvara af hálfu Evrópusambandsins. En þetta hlýtur að lýsa því hversu raunveruleg hætta er þarna fyrir hendi.