149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:10]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nefnilega afar áhugavert. Við höfum skuldbundið okkur í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að tala einni röddu með hinum aðildarríkjunum þegar við setjumst að samningaborði og innleiðum nýjar gerðir í samninginn gagnvart Evrópusambandinu.

En Noregur er með átta fyrirvara sem ekki er svarað. Ísland er að mér skilst, það er skýrast, með tvo, það sé að verða nokkur sátt um að það sé talan, en Liechtenstein engan. Og ætla menn svo að halda því fram að hér tali EES-ríkin einu máli, að hér tali þau einu máli gegn Evrópusambandinu? — Það má hlæja að þessu mín vegna, en þetta er grafalvarlegt mál sem við erum að tala um, þ.e. að við tölum hér einu máli. Eða gæti það verið (Forseti hringir.) að með þessari samþykkt og þessari innleiðingu værum við komin með tvö ríki (Forseti hringir.) sem væru búin að koma sér í fulla innleiðingu og Noregur stæði þá eitt (Forseti hringir.) utan og sér?