149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður fjallaði nokkuð ítarlega um umsögn og skrif fyrrverandi ráðherra og þingmanns, Ögmundar Jónassonar, sem hefur látið til sín taka í orkupakkaumræðunni, ekki bara nú heldur um alla tíð, vil ég segja. Þó að við Ögmundur séum ekki sammála um alla hluti höfum við oft orðið sammála um að komast að sameiginlegri niðurstöðu eða svipaðri niðurstöðu. Það sem ég dáist hins vegar að í fari Ögmundar er stöðugleikinn. Þú veist hvar þú hefur Ögmund Jónasson þegar hann tekur afstöðu í einhverju máli og hann fylgir henni allt til enda, það eru þau kynni sem ég hef haft af þeim ágæta manni.

Hann varar við markaðsvæðingu raforkunnar. Ólíkt flokksfélögum hans í Vinstri grænum, eða Hreyfingunni – framboði, hefur hann áhyggjur af því að áfram verði haldið á þessari braut, líkt og kannski þeir 107 þingmenn í Frakklandi sem hafa mótmælt því að Frakkar, frönsk stjórnvöld, ætli að láta undan þrýstingi Evrópusambandsins varðandi einkavæðingu eða markaðsvæðingu vatnsréttinda.

Nú má velta fyrir sér hvort Íslendingar eigi nú að spretta úr spori eins og stjórnarmeirihlutinn vill með þennan orkupakka þrjú meðan í hjarta Evrópusambandsins eru efasemdir um að rétt sé að halda áfram á þeirri braut sem er boðuð. En á sama tíma er eins og ákall kjörinna fulltrúa Evrópusambandsins nái ekki inn fyrir hina þykku veggi skriffinnskunnar í Brussel þar sem síðast í dag var verið að opinbera þær hugmyndir sem eru í fjórða orkupakkanum. Maður veltir því fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt að hvetja þá þingmenn sem eru á Alþingi fyrir (Forseti hringir.) Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, eða Hreyfinguna – framboð, að hlusta á sinn gamla læriföður, Ögmund Jónasson.