149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við getum auðvitað ekki svarað þessu, en það læðist margt að manni. Hingað var fenginn í hendingskasti sérfræðingur. Þegar utanríkisráðherra var kominn í ógöngur sendi hann eftir sérfræðingi, mjög ágætum, utan úr heimi til að hræða okkur með grýlu, Evrópusambandinu. Það gæti verið einn hluti af þessu. Hinn hlutinn gæti verið sá að menn hafi einfaldlega hlustað of mikið á embættismenn með mikilli virðingu fyrir þeirri stétt. Það er nú eitt af því sem við Miðflokksmenn höfum talið hér fram, bara yfirleitt í okkar stefnu, að við teljum að stjórnmálamenn eigi að stjórna, stjórnmálamenn eigi ekki að framselja sitt vald til embættismanna, jafnágætir og þeir eru, því að þeir eru umboðslausir. Það hefur enginn kosið þá og þeir bera ekki pólitíska ábyrgð. Þess vegna eiga þeir ekki að ráða pólitískri stefnumótun. Það er hlutverk stjórnmálamanna. Þetta segi ég í mikilli auðmýkt, en ekki af hroka. En þetta er bara þannig.