149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu fyrr í umræðunni las ég einmitt upp landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins um þetta efni og miðstjórnarsamþykkt Framsóknarflokksins. Þingflokkar beggja þessara flokka hafa tekið U-beygju frá þessum samþykktum sínum og það var, nota bene, á grunni þeirra samþykkta sem þessir flokkar ráku kosningabaráttu. Þeir ráku ekki kosningabaráttu undir yfirskriftinni: Innleiðum þriðja orkupakkann. Það var ekki svoleiðis. Þeir ráku kosningabaráttu sína á þeim prinsippum að Íslendingar ættu að hafa yfirráð yfir orkuauðlindum sínum. Og óðar en eftir því er leitað hlaupa þingflokkar beggja þessara flokka frá þeim loforðum sínum.

Ég orðaði það þannig áðan að í sjálfu sér hefðu þessir tveir flokkar blekkt kjósendur sína með því að ganga svona fram. Án þess að ég óski einhverjum einhvers ills vil ég fullyrða að menn munu komast að því að slíkt er ekki góðu heilli gjört. Menn munu komast að því í næstu kosningum að kjósendur muna. Þeir gleyma ekki því sem á hlut þeirra er gert.

Ég vil líka segja að auðvitað ætlar maður engum að keyra svona mál í gegn á einhverjum vafasömum forsendum en ég get ekki neitað því að mér finnst ríkjandi meðal þeirra sem styðja þetta mál, þá er ég ekki að tala um samtryggingarflokkana heldur hina, mikil léttúð í þessu máli, mönnum finnst bara takmarkalaust fyndið að reka þetta mál hér í gegn með þessum hætti. (Forseti hringir.) Það finnst mér ekki.