149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hér komum við að grundvallarhlut sem snýst um hræðslu þeirra sem vilja innleiða þennan pakka við að trúa á EES-samninginn. Þvert á það sem menn hafa haldið fram um þann hóp sem hér hefur uppi andóf gegn þessari innleiðingu er markmið okkar ekki að draga okkur út úr EES-samningnum, segja honum upp eða fórna honum á einhvern hátt. Við viljum hins vegar að þessi samningur sem er milli tveggja bærra aðila sé efndur að öllu leyti, ekki bara að sumu leyti. Það er ákvæði í samningnum sem varðar það að hægt sé að taka ágreiningsmál, senda þau í sáttameðferð í sameiginlegu EES-nefndinni. Menn hafa sagt: Þetta átti að gerast fyrr. Það getur vel verið, en þá átti það bara að gerast fyrr. Við lærum af því og látum þetta ekki ganga af því bara, af því að hér áður og fyrr voru kannski gerð einhver smámistök. (Forseti hringir.) Við látum það ekki angra okkur. Við gerum þetta rétt.