149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sá þessa auglýsingu. Mér þótti töluvert til um hana. Ég tók skilaboð hennar þannig að þetta unga fólk vildi efla alþjóðleg samskipti og viðskipti, alveg eins og við viljum sem erum hér að andæfa þessum orkupakka. Þau vilja ekki einangra sig. Það viljum við ekki heldur. Ég tók þetta sem áskorun til okkar um að halda áfram á okkar braut, þ.e. að efla hér alþjóðavæðingu, ekki bara Evrópuvæðingu — þar á er munur — og að styrkja tengsl okkar við alla heimshluta. Það viljum við gera. Þannig tók ég þetta.

Að tryggja frelsi? Ég get ekki litið þannig á að almenningur á Íslandi búi við ófrelsi. Ég get ekki tekið undir það ef það er meining setningarinnar. Ég verð að viðurkenna að ég skil hana kannski ekki til hlítar (Forseti hringir.) en ef þetta er merkingin hafna ég því að Íslendingar lifi við ófrelsi.