149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil koma aðeins inn í þessa umræðu um hækkun á raforkuverði til heimila og fyrirtækja í landinu. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að almenningur í landinu fái að vita staðreyndir málsins og að þeir sem heima sitja sjái hvaða áhrif orkupakki eitt og tvö hafa haft fyrir almenning í landinu á sama tíma og þingmenn sem styðja þetta mál hafa í ræðu og riti haldið því fram að það væri svo mikil neytendavernd sem hefði fylgt þessum orkupökkum, raforkuverð hafi lækkað o.s.frv. Annað kom svo sannarlega á daginn og ég ætla að byrja, herra forseti, á að vitna í grein í Vísi frá 24. febrúar 2005. Fyrirsögnin er: Orkuverð hækkar vegna orkulaga. Með leyfi forseta, ætla ég að vitna aðeins í nánar í greinina, hér segir:

„Orkuverð hækkar víða um land vegna nýrra raforkulaga sem banna ýmis sérkjör sem áður buðust. […] Ný orkulög valda hærra orkuverði til nokkurs fjölda neytenda, eins og til að mynda smáfyrirtækja sem áður nutu sérkjara […] Garðyrkjubændur eru einnig fórnarlömb [nýju] orkulaga[nna] sem og fjöldi húseigenda á landsbyggðinni“ — ég vek athygli á þessu — „sem nota raforku til kyndingar. […] Fréttastofa Stöðvar 2 óskaði skýringa hjá Orkuveitu Reykjavíkur á því hvers vegna afsláttartaxtar hefðu verið felldir niður og fékk þau svör að nýju orkulögin leyfðu ekki slíka taxta.“

Þarna komum við að kjarna málsins, nýju orkulögin sem voru á þeim tíma, innleiðing orkupakka eitt, gerðu það að verkum að allir sértaxtar, niðurgreiðslur til húshitunar, sérstakir taxtar til fyrirtækja sem nota rafmagn t.d. á næturnar, til bakarameistara o.s.frv., voru bannaðir. Það var sem sagt Brussel sem bannaði þessa taxta og ég segi það hér, herra forseti, ég ætla bara að orða það þannig: Hvað kemur Brussel það við að við hér í þessu harðbýla landi lækkum og niðurgreiðum rafmagn til húshitunar til almennings? Þetta sýnir bara hvað við erum að undirgangast með því að taka þátt í þessum sameiginlega orkumarkaði Evrópusambandsins. Aðstæður okkar hér eru allt aðrar en í Evrópu og það er þyngra en tárum taki, herra forseti, að við skulum fá einhverjar skipanir að ofan, ef svo má orða það, um hvernig við eigum að haga þessum málum hjá okkur.

Ég vil nefna annað dæmi sem er einnig í blaðagrein úr Dagblaðinu frá því í febrúar 2005. Þar er fyrirsögnin: Ellilífeyrisþegi í áfalli yfir tvöföldum rafmagnsreikningi. Það er nákvæmlega sama sagan og ég var að rekja í hinni blaðagreininni, þ.e. hækkun á rafmagni til húshitunar. Og tekin eru dæmi, herra forseti, af fjórum bæjum, í rafmagnsreikningum frá desember 2004 til janúar 2005 er hækkunin 74%. Á næsta bæ er hún 85% og svo er annar bær þar sem hækkunin er 96%. Fólk sér að þetta er náttúrlega með ólíkindum, algerlega með ólíkindum, og á sama tíma þegar þáverandi iðnaðarráðherra er inntur eftir því hvað hafi valdið þessum hækkunum og hvort hún geti skýrt það út er svarið að hún hafi talið að rafmagnið til húshitunar ætti ekki að hækka, þannig að stjórnvöld vissu ekki einu sinni hvað þau voru að undirgangast. Það verður að segjast eins og er að þessi vinnubrögð eru með ólíkindum og ég held að nákvæmlega það sama sé í gangi núna með þennan orkupakka, stjórnvöld, ríkisstjórnin og þeir aðilar sem styðja þessa tillögu og undirgangast þessa tilskipun Evrópusambandsins, hafa bara ekki hugmynd um það hvernig þetta kemur til með að þróast, hvaða áhrif þetta hefur, nákvæmlega eins og þau höfðu ekki hugmynd um það þegar þau undirgengust orkupakka eitt og tvö.

Herra forseti. Það verður að koma staðreyndum málsins á framfæri og þeir sem hafa haldið öðru fram um að raforkuverð hafi lækkað — það er ámælisvert (Forseti hringir.) að koma þeim röngum skilaboðum á framfæri við almenning.