149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek heils hugar undir með honum að sá fyrirvari sem hv. þingmaður nefnir og lagaprófessor hefur einmitt sagt að sé í raun og veru bara til heimabrúks — þetta er það sem ríkisstjórnarflokkarnir státa sig af, þeir séu búnir að leysa þetta mál farsællega með þeim fyrirvara að þetta hafi engin áhrif fyrir okkur vegna þess að búið sé að tryggja að hér verði ekki lagður neinn sæstrengur til og frá landinu nema með samþykki Alþingis. Það er það sem kveðið er á um í þessari reglugerð, ef ég man rétt. Við höfum enga hugmynd um hvort þessir fyrirvarar komi til með að halda vegna þess að það hefur ekki reynt á þá.

En það er annað sem nefna má að allir fyrirvarar eru eitur í beinum Evrópusambandsins. Það verður að segjast eins og er og það vita flestallir sem eru í stjórnsýslunni og eiga einhver samskipti við Evrópusambandið, að fyrirvarar af þessu tagi eru ekki vinsælir. En ef þeir eru á annað borð samþykktir af Evrópusambandinu verður það að gerast með lögformlegum hætti. Í þessu tilfelli erum við með EES-samninginn sem hefur ákveðna lagalega leið til að fara. Ferlið yrði þá þannig að stjórnvöld myndu lýsa áhyggjum sínum yfir því að innleiða þessa tilskipun á þeim forsendum að við séum ekki tengd Evrópumarkaði og að þetta geti þá haft áhrif á okkar raforkumarkað ef við yrðum tengd. Þess vegna viljum við fá undanþágu frá þessu. Þessar áhyggjur okkar berum við upp við sameiginlegu EES-nefndina og í framhaldi af því náum við vonandi góðri niðurstöðu og skilningi Evrópusambandsins sem síðan aftur (Forseti hringir.) samþykkir þá þennan fyrirvara. Þetta er lögformlega leiðin, ekki einhver (Forseti hringir.) svona heimabrúksaðferð eins og stjórnvöld leggja til.