149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Um leið og þessi tilskipun verður samþykkt í þinginu mun það strax leiða til hækkunar á raforkuverði vegna þess að þá mun svokallað eftirlitsgjald á orkufyrirtækin hækka um 45%. Þessi fyrirtæki hafa lýst því yfir í umsögnum fyrir utanríkismálanefnd að sú hækkun muni fara út í verðlagið. Við vitum ekki hversu mikil sú hækkun verður en hún mun fara út í verðlagið. Það er bara lögmál í þessu að þegar verið er að hækka gjöld á þessi fyrirtæki fer það því miður alltaf út í verðlagið.

En síðan er annar þáttur í þessu sem lýtur að orkuvirkjunum, þ.e. flutningnum á orkunni hér innan lands. Orkutilskipunin greiðir fyrir því að fyrirtæki geti hafið vinnslu og einnig svokallaðir vindmyllugarðar, sem dæmi. Þá þarf að koma orkunni frá þessum vindmyllugörðum inn á netið. Þessi fyrirtæki sjá ekki um þann kostnað. Það er á kostnað þeirra sem eiga flutningskerfin, í þessu tilfelli Landsnet. Því fylgir umtalsverður kostnaður. Kostnaðurinn mun fara beint til neytenda. Það er bara eins og annað í þessum efnum. Flutningskostnaður raforkunnar mun þannig hækka.

Það er ekkert nýtt hvað þetta varðar. Þetta er bara spurning um lögmál um markað og eftirspurn. Það er mikilvægt fyrir þessa aðila sem fjárfesta í þessu, að koma orkunni út í kerfið. En svo er það aftur á móti annað mál, sem er náttúrlega alveg einnar messu virði, eins og sagt er, hvers vegna menn að ásælast í að framleiða orku hér á landi, þessir nýju aðilar sem sóst hafa eftir virkjunarleyfum, sem sóst hafa eftir að byggja vindmyllugarða o.s.frv., því að ekki ætla þeir að selja (Forseti hringir.) orkuna hérna innan lands vegna þess að það er umfram eftirspurn í kerfinu. Það segir okkur að þeir bíða eftir því (Forseti hringir.) að búið verði að greiða götuna fyrir því að hægt sé að selja hana til Evrópu og það gerum við (Forseti hringir.) með því að innleiða þennan pakka.