149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki ekki nákvæmlega töluna en það er umtalsverð aukning. Mig minnir að hv. þm. Ólafur Ísleifsson hafi lagt fram fyrirspurn þess efnis hvað væri búið að veita mörg leyfi. En kjarni málsins er sá að það er mikill áhugi fyrir orkuvinnslu á Íslandi. Og eins og hv. þingmaður nefndi réttilega þurfa virkjanir undir 10 MW ekki að fara í umhverfismat. Það styttir ferlið verulega.

Síðan höfum við fengið fréttir af því að norskir aðilar, sjóðir sveitarstjórna í Noregi, hafi áhuga á því að reisa hér vindmyllugarð. Það eru fjárfestingarsjóðir sem sveitarfélögin eiga aðild að í Noregi, sem fara mjög varfærnislega í fjárfestingum sínum, sem hafa áhuga á því að reisa hér vindmyllugarða. Það segir okkur að menn sjá í þessu heilmikil tækifæri. Þá spyr maður sig: Ef þessi (Forseti hringir.) orkupakki verður ekki samþykktur, er þá verið að kippa stoðunum undan þessum fyrirtækjum? Er þess vegna svo mikill (Forseti hringir.) þrýstingur á að samþykkja þennan pakka? Það geta verið tengsl þarna á milli sem er mjög áhugavert að skoða.