149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við Íslendingar höfum reynslu af því, líka úr nýliðnum tíma, að þegar sótt er að hagsmunum íslenskrar þjóðar er efnt til ýmiss konar atburða og tiltækja sem hafa það bersýnilega að markmiði að veikja viðnámsþrótt þjóðarinnar og draga úr henni kjark. Þannig stendur til að mynda á að stjórnmálaflokkur sem er starfandi hér á Alþingi á að nokkru leyti rætur sínar í samtökum sem stofnuð voru með það að markmiði að leiða Íslendingum það fyrir sjónir að þeim væri hollast að samþykkja ólögvarðar kröfur sem var á endanum hafnað af EFTA-dómstólnum.

Að kalla til svissneskan lögmann er atriði sem ekki hefur fengið nægjanlega umfjöllun en mun án vafa verða fjallað um nánar í framtíðinni.

Ítarlegasta greiningin sem fyrir augu mín hefur borið er í ritstjórnargrein Morgunblaðsins 10. maí og er hún reist á frásögn af fundi hins svissneska lögmanns á fundi utanríkismálanefndar daginn áður, 9. maí. Með leyfi forseta ætla ég að grípa niður í þessa ritstjórnargrein Morgunblaðsins frá 10. maí. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þó að Baudenbacher sé lögfræðingur voru þau sjónarmið sem hann viðraði ekki síður af pólitískum toga og mat á pólitískri stöðu. Þetta gerði álit hans ekki minna áhugavert enda dró hann með því fram þá stöðu sem hann telur Ísland vera í og þá stöðu sem hann telur að Norðmenn telji Ísland vera í.

Baudenbacher segir að til „lengri tíma litið gæti höfnun Íslands á þriðja orkupakkanum teflt í tvísýnu aðild landsins að EES-samningnum“. Þetta er ekki lagalegt álit heldur fyrst og fremst pólitískt mat og byggist á því að hann segir að „sú skoðun hafi alltaf verið til staðar í Noregi að túlka ætti EES-samninginn á þann veg að um tvíhliða samning væri að ræða á milli Norðmanna og Evrópusambandsins þar sem Íslendingar og Liechtensteinar væru í eins konar aukahlutverki“, eins og sagði í frétt á mbl.is í gær.

Baudenbacher segir einnig, og er þar enn í hlutverki pólitíska álitsgjafans fremur en lögfræðingsins, að Íslandi beri skylda til að sýna Noregi og Liechtenstein hollustu í EES-samstarfinu. „Nú þegar Liechtenstein og Noregur hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvörum ætlast ríkin til þess að Ísland geri slíkt hið sama,“ segir hann.“

Lagt er út af því með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

„Þá gefur hann það álit sitt að litlar líkur séu á að Ísland fengi undanþágu frá þriðja orkupakkanum ef málið færi aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar í kjölfar þess að Ísland hafnaði því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af honum. Á hinn bóginn hefði Ísland lagalegan rétt til að neita að samþykkja þriðja orkupakkann, en Baudenbacher finnst málið ekki þess eðlis að nýta eigi þann rétt.

Mikilvægt er að fá enn einu sinni staðfest að Íslendingar eru ekki lagalega skuldbundnir til að segja já og mega segja nei. Enda er augljóst að bæri Íslandi skylda til að samþykkja orkupakkann væri EES-samningurinn í uppnámi, eins og vinsælt er að segja nú, og það væri raunverulegt uppnám en ekki ímyndunin ein.“

Áfram vitna ég til ritstjórnargreinarinnar þar sem segir:

„Pólitískt mat Baudenbachers er þó ekki síður mikilvægt því að hann segir í raun að Norðmenn líti á Ísland sem hreint aukaatriði í EES-samningnum og ekkert annað en útkjálka frá Noregi. Og ef marka má orð Baudenbachers er Íslandi í raun pólitískt skylt að samþykkja allt það sem Norðmönnum og ESB dettur í hug að bera á borð, hvað sem EES-samningurinn sjálfur segir. Lögin skipta þá engu.

Ætla þingmenn að láta þvinga sig til samþykkis við þriðja orkupakkann á þessum forsendum? Gefa þeir ekkert fyrir sjálfstæði Íslands og fullveldi? Þá hljóta margir að spyrja til hvers hafi verið barist.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti.