149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Já, þetta er sérkennilegt og ég tek undir með hv. þingmanni að það er svo ótal margt sem minnir mann á þessa tíma hvað varðar áróðurinn, jafnvel það hvernig hann var settur fram, orðalagið, hræðsluáróðurinn o.s.frv., en um leið notuðust menn við sömu uppnefni gagnvart þeim sem þorðu að gagnrýna þessa framgöngu. Það var talað um einangrunarsinna og popúlisma og að verið væri að búa til óraunhæfar væntingar um hvað við gætum gert sem þjóð o.s.frv. Það er stundum eins og sagan endurtaki sig og að menn eigi erfitt með að læra af henni. Í þessu máli hins vegar liggur fyrir í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hvaða úrræði Íslendingar hafa til að leiða málið til lykta og því er ekki stillt upp þar sem einhvers konar neyðarúrræði eða neyðarhemli, heldur er það orðað, ef ég man rétt, a.m.k. í skýringum, á frekar fallegan hátt sem sáttaleið, þ.e. við höfum tækifæri til innan þessa samnings að miðla málum með þeim hætti að allir geti vel við unað og að ekki sé gengið á hagsmuni eða rétt einnar þjóðar til að auka hag annarra á kostnað hennar. Þess vegna er mér óskiljanlegt að menn skuli ekki nýta slík úrræði.

En þá að spurningunni: Setjum við ekki EES-samninginn í hættu ef við þorum ekki að nýta þau úrræði sem hann veitir og förum sjálf að líta á hann sem einhvers konar ógnartæki sem við Íslendingar megum ekki amast við (Forseti hringir.) en við eigum að sýna öðrum hollustu?