149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Íslendingar hafa ekki verið hikandi þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi. Þeir eru stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Við gengum í EFTA á áttunda áratugnum og við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu á tíunda áratugnum. Strax eftir styrjöldina síðari gerðumst við stofnaðilar að þeim stofnunum sem settar voru á laggirnar til að endurreisa efnahaginn eftir stríðið. Við erum í hópi 27 ríkja sem eru stofnaðilar að Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það gerum við í krafti fullveldis okkar og við erum sem þjóð virkir þátttakendur í öllu þessu starfi. Við leggjum okkar af mörkum. Í sumum efnum hefur framlag okkar verið afar mikilsvert, leyfi ég mér að segja, ekki síst á sviði öryggis- og varnarmála.

Nú er sú staða uppi að í samningi sem fjallar í eðli sínu um viðskipti með vörur, þjónustu og búseturétt, rekstur fyrirtækja, og annað af því tagi, að okkur er ætlað að samþykkja hér tilteknar gerðir sem hafa munu í för með sér veruleg ítök í orkuauðlindir þjóðarinnar, eftir því sem lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar hafa lýst svo glögglega í lögfræðilegri álitsgerð sem liggur hér fyrir sem þingskjal. Þá er náttúrlega allt annað uppi en það að reka einfaldan samning. Hér eru ósköp einfaldlega miklir hagsmunir sem stjórnvöldum er skylt (Forseti hringir.) að verja.