149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú verður líklega nóg að gera hjá siðanefndinni ef öll orð verða tínd til sem hafa fallið í þessum ræðustól. Fyrirvarinn sem hv. þingmaður nefndi í sinni ágætu ræðu, og andsvörum við þann sem hér stendur, gildir réttilega um reglugerð 713/2009. Ef þessi fyrirvari er svona merkilegur og mikilvægur, hvers vegna gildir hann þá ekki um 714? Vegna þess að 714 fjallar um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri. Hún virðist ekki háð neinum fyrirvara. Af hverju er verið að gera fyrirvara við reglugerðina vegna ACER eingöngu en ekki um reglugerðina sem fjallar um sjálfar tengireglurnar? Er það vegna þess að stjórnvöld vilja ekki að það sé einhver fyrirvari? Er það vegna þess að þau vita að einfaldara er að selja það að verið sé að setja einhvers konar fyrirvara á þessa alþjóðlegu stofnun þó að vitanlega sé ekki verið að gera það í raun og veru? Hvers vegna er þessi gerð undanskilin fyrirvaranum?

Þetta er býsna mikilvægt því að við þurfum að velta því fyrir okkur hvort skipti meira máli, ef menn eiga að velja, að hafa fyrirvara við tengireglurnar sjálfar eða stofnunina. Ég hefði haldið að ef einhver alvara væri í þessu hefðu stjórnvöld gert fyrirvara við báðar þessar gerðir en svo virðist ekki vera.