149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja en ég ætla að byrja á góðum stað, það eitt er víst. Í þriðja orkupakkanum er lögð áhersla á að styrkja áfram innri markað fyrir raforku og að gripið verði til frekari aðgerða til að tryggja Evrópubúum sjálfbæra, örugga og samkeppnishæfa orku, eins og sagt er. Orkustefnan er auk þess tengd 20/20/20-markmiðunum sem ég talaði um fyrir nokkrum dögum síðan. Það þýðir að árið 2020 eiga endurnýjanlegir orkugjafar að sjá ríkjunum fyrir a.m.k. 20% orkuþarfar, auka á orkunýtni um 20% og losun gróðurhúsalofttegunda skal minnkuð um 20%. Þaðan er þetta heiti komið.

Að því sögðu er mikilvægt að velta fyrir sér lagningu sæstrengs í framtíðinni. Það er ekki ólíklegt og jafnvel er það þekkt að Landsvirkjun sjái í því mikil tækifæri, þ.e. að afsetja frá landinu hreina orku, í ljósi þess sem ég sagði hér rétt áðan, og ekki síst með því að þannig mætti nýta umframorku sem er í kerfinu. Það er vegna öryggisviðmiða af því að kerfið er einangrað.

Slíkt mun einnig gefa færi á stóru framlagi landsins til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og það er mjög mikilvægt. Til að minna á það hefur formaður garðyrkjubænda sagt í Morgunblaðinu að innleiðingin gæti þýtt endalok innlendrar garðyrkju vegna hækkunar raforkuverðs, sem við höfum líka rætt hér. Nú þegar er búið að gera ítarlega úttekt á lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands og er búið að meta áhrifin á íslenskt samfélag og verðþróun á raforku til heimila og fyrirtækja. Það má finna ef fólk kann að gúgla, eins og sagt er, með leyfi forseta.

Ef við förum aðeins lengra og yfir í alvarlega hlutann á þessu öllu saman horfum við fram á víðtækt valdframsal í orkumálum samkvæmt orðum norska lagaprófessorsins Peters T. Ørebechs er kristaltært að innleiðing á þriðja orkupakka Evrópusambandsins mun leiða til þess að ACER, orkustofnun Evrópusambandsins, mun ná yfirþjóðlegri stöðu á Íslandi. Það hefur margítrekað komið fram í ræðum og er alveg stórmerkilegt að enginn hafi brugðist við með rökum og óyggjandi hætti að það sé ekki rétt. Það þýðir að regluverk orkupakkans mun yfirkeyra íslensk lög og mun standa hærra í svokölluðu lagalegu tilliti. Það felur í raun í sér algjört og mjög víðtækt valdframsal Íslands í orkumálum. Afleiðingin yrði væntanlega sú að hvaða lög og reglur sem menn kunna að setja um mögulegt bann við lagningu sæstrengs, sem ég talaði um áðan, yrðu ekki pappírsins virði.

Það eru enn víðtækari afleiðingar af innleiðingu þriðja orkupakkans. Við höfum rætt hækkað verð á raforku til heimila og fyrirtækja. Við skulum ekki gleyma fyrirtækjunum. Vald yfir auðlindinni verður skert og þá jafnvel tapað. Við erum ekki einu sinni með orkustefnu á Íslandi. Landsvirkjun verður bútuð niður vegna fákeppnissjónarmiða því að fastlega má búast við að eftir að sæstrengur hefur verið lagður á forsendum Evrópusambandsins verði gerð krafa um uppskiptingu á Landsvirkjun sem yrði flokkuð sem fyrirtæki í einokunarstöðu. Það er því ýmislegt sem hægt er að ræða frekar og margt sem við eigum eftir að fá svör við. Ég vona að þau fari að fást.