149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alltaf ánægjulegt að hafa forseta í forsetastól sem maður ber virðingu fyrir. Hv. þingmaður nefndi garðyrkjuna og varnaðarorð þeirra sem þar starfa. Það er svolítið sérstakt að upplifa það hér í húsinu og jafnvel í salnum að menn eru að flissa yfir því að garðyrkjumenn eða bakarar skuli hafa áhyggjur af þessu. Fyrir báða þessa aðila er þetta gríðarlega stórt mál þar sem þeir nota mikið rafmagn í sínum rekstri. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að garðyrkjan, án þess að ég hafi hugmynd um það, noti ívið meira rafmagn en hinir. Það breytir því ekki, og því hefur ekki verið mótmælt, ég tek það fram að ég hef í það minnsta ekki heyrt að því hafi verið mótmælt úr ræðustól af hálfu fylgjenda þessa orkupakka, að raforkuverð t.d. til framleiðenda í garðyrkju muni hækka og á sama tíma er bannað að niðurgreiða rafmagnið með því að bæta þeim þær hækkanir sem kunna að verða vegna þess að það er þá brot á öðrum reglum sem við höfum innleitt og tekið upp. Eftir stendur þá að áhyggjur þeirra af innleiðingunni eru fullkomlega réttmætar. Við höfum séð að orkuverð hefur hækkað þegar þessir orkupakkar hafa verið innleiddir. Áhyggjurnar eru því réttmætar af því að reynslan sýnir okkur það. Auk þess hefur enginn mótmælt því í raun með óyggjandi hætti að orkuverð muni hækka eða að niðurgreiðslur verði ekki leyfðar þótt við vitum hvort tveggja.