149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Í ítarlegum umsögnum Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings, sem býr og starfar í Noregi, að ég held, er fjallað ítarlega um hvers vegna Ísland þurfi ekki og eigi ekki að innleiða þennan orkupakka. Fyrir því eru færð mjög ítarleg og góð rök. Meðal þess sem lögmaðurinn telur að mæli gegn því að þetta sé innleitt með þessum hætti er að Ísland hafi ekki neina orkustefnu í raun, að Ísland hafi ekki sett sér orkustefnu og sé því að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins með því að fara þessa leið. Um það hefur vitanlega, sem er réttmæt ábending, ekki farið fram nein umræða á Íslandi eða Alþingi, hvort við séum tilbúin að gera orkustefnu Evrópusambandsins að okkar orkustefnu. Það er því eðlilegt að málið sé ekki innleitt eða verði ekki afgreitt fyrr en í það minnsta að við verðum búin að koma okkur upp orkustefnu. Það er í það minnsta skoðun þess sem hér stendur.

Þess vegna er svolítið sérstakt að standa frammi fyrir því að vera að innleiða orkustefnu sem einhver annar hefur sett og vera svo ren, eins og maður segir þegar verið er að spila vist eða eitthvað slíkt, þegar maður er ekki með nein mótspil. Hefur þingmaðurinn ekki einhverjar áhyggjur af því að við séum nú þegar með innleiðingunum fram til þessa á fyrstu og annarri orkutilskipuninni og nú orkupakka þrjú, ef af verður, búin að innleiða ákveðna stefnu, viðmið, verkfæri og þess háttar sem við munum (Forseti hringir.) óhjákvæmilega þurfa að taka mið af við mótun okkar eigin orkustefnu?