149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:42]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, þetta var mjög ítarleg umsögn hjá Eyjólfi Ármannssyni og það er grátbroslegt að standa hér og viðurkenna að þetta sé kannski akkúrat staðan. Við höfum fyrr rætt vöntun á orkustefnu fyrir Ísland og þá erum við sjálfsagt að öllu leyti að fjalla um fyrirtækin, hvernig við viljum hafa fyrirtækin okkar. Eiga þau áfram að vera í opinberri eigu eða hvað viljum við gera með þau? Að mínu viti eigum við að hafa þau áfram eins og það er. Síðan erum við að ræða um virkjunarkosti og við erum farin á þann stað að ræða um það hvort okkar virkjunarkostir, svokallaðir, verði líka teknir upp og lúti þá evrópskum stöðlum og reglum og við höfum bara ekkert um það að segja.

Mér finnst það ekkert óeðlileg spurning hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að velta því fyrir sér hvort við séum virkilega að taka upp orkustefnu Evrópusambandsins þar sem við höfum ekki mótað okkur slíka stefnu sjálf. Eins og ég sagði áðan birtist ein grein í Morgunblaðinu þar sem fjallað var um akkúrat þetta, að okkur vantar orkustefnu. Það væri ráð ef fólk myndi kveikja á perunni og fjölmiðlar mættu gjarnan fara dýpra ofan í hvað það þýði fyrir íslenska þjóð að vera ekki með orkustefnu en ætla að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins.