149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:47]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er merkilegt að stilla þessu svona upp, eiginlega dálítið sniðugt ef út í það er farið, að við höfum annars vegar stjórnarflokkana og hins vegar atvinnulífið. En fyrri hópurinn, stjórnarflokkarnir, eru hér í umboði landsmanna, eru á Alþingi í umboði Íslendinga og þeir telja okkur trú um að þetta muni ekki hafa nein áhrif. Á sama tíma, eins og hv. þingmaður benti á, segir atvinnulífið algjörlega þvert á móti, að þetta hafi mikil áhrif og að nauðsynlegt sé að innleiða orkupakka þrjú. Ég velti fyrir mér: Hafa þeir lesið sér til gagns? Hefur atvinnulífið lesið sér til gagns eða lásu þeir aðeins álit Carls Baudenbachers sem kom um daginn og túlkar þá atvinnulífið það sem hinn heilaga sannleik, eins og svo margir stjórnarliðar virðast gera, því miður?

Það er rétt að Evrópu vantar orku og það sem er grátlegt við það er að hana er að finna á Íslandi. Það sem er enn verra við það er að íslensk heimili munu þurfa að greiða fyrir það að Evrópu vanti hreina orku. Það er ekki flóknara en það og ég vil enn og aftur minna á að við erum hér með stjórnarflokka sem eru á Alþingi í umboði landsmanna og þeir segja að þetta hafi engin áhrif.