149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:49]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég óttast að atvinnurekendurnir hafi í raun rétt fyrir sér hvað varðar áhrifin en ekki þau stjórnvöld sem eru að reyna að koma þessum samningi hér í gegn, hvers vegna svo sem stjórnvöld reyna að rökstyðja innleiðinguna með því að við eigum að innleiða þetta af því að þetta hafi ekkert að segja.

Þegar ég segi að ég óttist að atvinnurekendur hafi rétt fyrir sér um áhrifin er ég ekki að tala um þær fullyrðingar þeirra að þetta sé svo jákvætt heldur þvert á móti að það sé rétt hjá þeim að þetta muni hafa talsverð áhrif en að þau áhrif verði almenningi á Íslandi og raunar ekki atvinnulífinu í heild til góðs vegna þess að orkuframleiðslan hefur verið svo mikil undirstaða fjölbreytilegs atvinnulífs víða um land. Hér hafa menn nefnt garðyrkjubændur og bakara, ályktanir þeirra sem dæmi, en í raun hefur orka á viðráðanlegu verði gríðarlega mikið að segja fyrir flestallar atvinnugreinar á Íslandi, fyrir landbúnað, sjávarútveg og einnig hinar ýmsu þjónustugreinar. Ef við missum það samkeppnisforskot sem samfélag sem felst í því að geta boðið upp á orku á viðráðanlegu verði, missum möguleikana á því að bjóða upp á 100% hreina orku, verðum orðin hluti af einhverjum evrópskum orkupotti og ef fullyrðingar um að meira en helmingurinn af orku okkar sé kolaorka verða réttar í framtíðinni, mun það skaða bæði ímynd okkar og okkur sem samfélag, efnahagslega, til verulegra muna.