149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég hef leitast við að fara yfir þá fyrirvara sem norska Stórþingið setti vegna innleiðingar þriðja orkupakkans. Mér hefur enn ekki tekist að klára að fara yfir þennan lista vegna þess hversu naumt mér er skammtaður tími í hvert skipti, en held þessari yfirferð núna áfram. Ég vil þó láta vita að ég hef ekki gleymt fyrri fyrirheitum um að fjalla hér, vonandi fljótlega, sérstaklega um Kýpur og áhrif tengingar þeirrar eyju við raforkukerfi Evrópu og hvernig það varpar frekara ljósi á áhrif orkupakkans á Ísland.

Ég var kominn að þriðja fyrirvara Norðmanna sem segir:

„Norsk, endurnýjanleg orkuframleiðsla skal stuðla að aukinni verðmætasköpun og atvinnu í Noregi og skal skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku.“

Þetta er eitt af lykilatriðunum sem við höfum verið að ræða á Íslandi varðandi hættuna af þessum orkupakka, atriði sem norskir þingmenn hafa greinilega miklar áhyggjur af, en okkur er ýmist sagt að muni ekki skipta neinu máli hér eða að það sé bara hið besta mál að selja orkuna til útlanda svo hún nýtist þar til atvinnusköpunar.

Það er afskaplega sérkennilegt ef það er raunverulega afstaða íslenskra stjórnvalda að ekki beri að forgangsraða með þeim hætti að íslenska orkan nýtist til að búa til störf hér innan lands og verðmæti sem af þeim störfum leiða. Þetta er sérstaklega sérkennilegt í ljósi þess hvað aðgengileg og tiltölulega ódýr orka hefur haft mikið að segja um aukna verðmætasköpun í landinu og um það að viðhalda byggð hringinn í kringum landið. Það að við skulum hafa haft þann möguleika að nýta orkuna til að verja byggðarlög hringinn í kringum landið hefur algjörlega skipt sköpum.

Það sama er eflaust uppi á teningnum í Noregi þó að það sé ekki að sama marki og hér, en hvernig stendur á því að íslensk stjórnvöld gera engan slíkan fyrirvara þegar norska þingið sér ástæðu til þess að fara fram á undanþágu sem þessa?

Þá að fjórða fyrirvara Norðmanna sem hljóðar einhvern veginn svo í lauslegri þýðingu:

„Norsk stjórnvöld skulu hafa sjálfstætt eftirlit með öllum ákvörðunum sem eru mikilvægar fyrir orkuöryggi í Noregi, þar á meðal ákvarðanir sem tengjast iðnaði og aflgjöfum.“

Hvers vegna skyldu Norðmenn vera að árétta þetta? Það er vegna þess að þeir hafa væntanlega lesið þriðja orkupakkann og áttað sig á því hverjar kunni að vera afleiðingar hans, a.m.k. áttað sig á því hvaða markmiðum er þar lýst og hver markmið ACER, hinnar sameiginlegu orkustofnunar Evrópu, eigi að vera. Þau eru einmitt að hafa eftirlit með þessum málum í aðildarlöndunum. Þá segja kannski einhverjir: En gerist þetta ekki allt í gegnum ESA? Svarið við því er að í besta falli skiptir það engu máli því að hlutverk ESA verður eingöngu að taka við og framfylgja drögum frá ACER.

Norðmenn árétta hér, eða leitast við að gera það, að norsk stjórnvöld ætli sjálf að sjá um þetta eftirlit með ákvörðunum sem eru mikilvægar fyrir orkuöryggi í Noregi. Þá kynnu einhverjir að segja að þessi fyrirvari sé ekki í samræmi við þriðja orkupakkann. Eflaust er það mat Evrópusambandsins sem í 14 mánuði hefur ekki fengist til að staðfesta að þessir fyrirvarar Norðmanna gildi, það hefur ekki einu sinni svarað erindinu frá norska þinginu.

Það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar, virðulegur forseti, að því sé ekki einu sinni svarað þegar Norðmenn gera svona sjálfsagða fyrirvara. Hver skyldi vera ástæðan fyrir því? Ég held að við getum öll áttað okkur á því.

Nú er ég aðeins kominn að fjórða fyrirvara Norðmanna og tími minn er enn á ný á þrotum. Þess vegna verð ég að biðja yðar frómheit að skrá mig aftur á mælendaskrá.