149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ágæta yfirferð hans yfir fyrirvara þá sem Norðmenn gerðu við þriðja orkupakkann, geri ég ráð fyrir. Hann fór hér yfir þriðja og fjórða fyrirvarann. Ég tók eftir því í hans yfirferð að í þeim sem er númer fjögur í máli hv. þingmanns segir sem svo að Norðmenn eða norsk stjórnvöld skuli hafa sjálfstætt eftirlit.

Í þessu sambandi vil ég koma að eftirlitsstofnunum Evrópu, orkumálastofnun Evrópu, ACER, eða í umboði hennar ESA í tilfelli EFTA-ríkjanna, hvernig Norðmenn geta séð fyrir sér að þeir hafi eitthvert sjálfstætt eftirlit sem er þá alveg til hliðar við það eftirlit sem gert er ráð fyrir í tilskipuninni sem er undir orkumálastofnun Evrópu, hvort hv. þingmanni sé kunnugt um hvernig þessi fyrirvari virkar í tengslum við þá staðreynd að það er auðvitað orkumálastofnunin sem fer með eftirlit á ýmsum sviðum og ekki síst þegar búið er að innleiða fjórða orkupakkann, hvernig samspili þessara eftirlitsaðila sem ég hef nefnt sé háttað í Noregi eða hvort sá fyrirvari sem hv. þingmaður nefndi hafi eitthvert gildi yfirleitt.