149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Norðmenn óttast margir hverjir einmitt að þessi fyrirvari muni ekki hafa neitt gildi þegar á reynir en þeir halda enn í vonina vegna þess að Íslendingar eru ekki búnir að innleiða þriðja orkupakkann og þar af leiðandi er hann ekki kominn inn í EES-samninginn enn sem komið er. Á meðan sú staða er uppi halda Norðmenn þessari stjórn hjá eigin stjórnvöldum. Það er einmitt þess vegna sem það er hagsmunamál Norðmanna að Íslendingar spyrni við fótum og afþakki þennan orkupakka eins og hann lítur út og sendi hann aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, vegna þess að þar gefst Norðmönnum tækifæri til að fá loksins svörin sem þeir hafa beðið eftir í 14 mánuði frá Evrópusambandinu, svörin við því hvort eitthvert mark verði tekið á fyrirvörum þeirra, hvort þeir öðlist gildi sem undanþágur.

En hvers vegna skyldi Evrópusambandið ekki svara? Ég gat mér til um það áðan að það væri vegna þess að það taki ekkert mark á þessu og eflaust er það meginástæðan, það telji þetta vart svara vert enda þekkjast ekki slíkir einhliða fyrirvarar. Eflaust vill Evrópusambandið líka forðast að styggja Norðmenn með þeim sannleika á meðan beðið er eftir innleiðingunni á Íslandi. Ég óttast að hugsanlega verði þetta erindi Norðmanna grafið upp einhvers staðar í Brussel þegar Íslendingar eru búnir að innleiða og þá munu menn svara og segja: Nei, þið hljótið að gera ykkur grein fyrir því að það er ekki til neitt sem heitir einhliða fyrirvari í þessu samstarfi eða samkvæmt þessum samningi. Fyrir vikið eru eflaust margir Norðmenn sem binda vonir við það að við Íslendingar verjum ekki aðeins rétt okkar og hagsmuni í þessu máli heldur um leið hagsmuni Noregs.