149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir hans ágætu útskýringar við þeirri spurningu sem ég bar upp um samspil eftirlitsaðila á því sviði sem Norðmenn gera ráð fyrir að sé innanlandsaðili að því er hv. þingmaður nefndi hérna með þennan fjórða fyrirvara Norðmanna sem kallaður er svo við tilskipun Evrópusambandsins um raforku.

Þá kemur mér í hug varðandi stöðu Norðmanna, og vil víkja að því hér við hv. þingmann, að Norðmenn eru tengdir að mörgu leyti og munu tengjast enn þá betur ef áætlanir ná fram að ganga varðandi sæstrengi frá Noregi yfir Norðursjó og líka yfir til Svíþjóðar og Danmerkur þannig að þar er allt öðruvísi umhverfi nú um stundir en á Íslandi. Þá spyr ég hv. þingmann hvaða möguleika hann sjái fyrir sér að Norðmenn hafi á slíkum undanþágum núna þegar staðreyndin er sú að þeir eru tengdir en ekki við, þ.e. undanþágu frá þeim reglum Evrópusambandsins sem við viljum fyrir alla muni ekki vera sett undir, þ.e. hugsanlega skiptingu raforkufyrirtækja sem eru auðvitað hér á landi Landsvirkjun að langmestu leyti. Við viljum hafa þetta í þjóðareigu og njóta arðs af því innan lands. Slíkt er líklega í stórhættu í Noregi, að því verði skipt upp þar og að Norðmenn missi það hugsanlega úr höndum sér. Hvert er álit hv. þingmanns á því?