149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:05]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið við þessari spurningu er kannski að finna í seinni fyrirvörum sem ég á einmitt eftir að fara yfir í ræðu á eftir. En virðulegur forseti er vonandi ekki ósáttur við mig þótt ég taki dálítið forskot á sæluna til að svara hv. þingmanni sem spyr hvaða munur kunni að felast í þeirri staðreynd að Noregur er þegar tengdur við evrópska orkukerfið og hvort það geti valdið þeim enn meiri vandræðum en Íslendingar standa frammi fyrir sem ekki eru tengdir. Þá er mjög áhugavert að líta til þess fyrirvara sem ég hyggst ræða nánar á eftir að þrátt fyrir að Noregur sé þegar tengdur við þetta orkukerfi með sæstreng taka Norðmenn sérstaklega fram að þeir vilji sjálfir fá að ráða því hvort fleiri sæstrengir verði lagðir. Með öðrum orðum, þrátt fyrir að vera þegar tengdir hafa þeir áhyggjur af þessu sem við höfum velt fyrir okkur hér, að ACER eða aðrar stofnanir Evrópusambandsins geti hlutast til um það að lagður verði sæstrengur, ýtt undir það eða rutt úr vegi þeim hindrunum sem kunna að vera til staðar.

Þessar áhyggjur hafa Norðmenn þrátt fyrir að vera þegar tengdir. Ættum við Íslendingar þá ekki að hafa þeim mun meiri áhyggjur? Út á hvað gengur þetta með þriðja orkupakkann? Jú, það gengur út á, ekki hvað síst og alveg sérstaklega, að tengja ný svæði sem eru ekki tengd fyrir, að hluta til að auka tengingar almennt en alveg sérstaklega það að stuðla að því að svæði sem eru ekki tengd við netið verði tengd. Samt telja Norðmenn ástæðu til að hafa áhyggjur af því að Evrópusambandið geti hlutast til um viðbótartengingar þar.