149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:10]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að svara seinni spurningunni. Ég þekki engin dæmi þess að slíkir fyrirvarar hafi haft nokkurn skapaðan hlut að segja. Ég minnist þess reyndar í átökunum um Icesave þegar upp kom hugmyndin um að Íslendingar myndu bæta einhliða fyrirvörum í þann samning að mér þóttu góð tíðindi að menn skyldu láta glepjast til þess vegna þess að ég vissi að gagnaðilinn myndi aldrei staðfesta þann samning. Það kom líka á daginn. Gagnaðilinn taldi ekki ásættanlegt að íslensk stjórnvöld ætluðu að setja sína eigin einhliða fyrirvara og því fór sem fór. Samningurinn var ekki staðfestur og fyrir vikið kom hann aftur í þingið og menn þekkja væntanlega restina af sögunni.

Við spurðum sérstaklega um þessa fyrirvara, þ.e. fyrirvara við EES-samninginn almennt, á fundi í utanríkismálanefnd og þeir sérfræðingar sem þar sátu fyrir svörum sögðust ekki þekkja nein dæmi um slíkt. Ef þeir þekkja það ekki efast ég um að menn geti grafið slíkt upp.

Hvað varðar svo samanburðinn á svokölluðum fyrirvara Íslands og þessum tíu fyrirvörum Norðmanna sýnist mér fyrir vikið það sama eiga við, að það sé ekkert hald í þeim, en samanburðurinn er engu að síður áhugaverður vegna þess að Norðmenn sýna þó með sinni tilraun að þeir hafi haft meiri áhyggjur eða þeim verið ívið meiri alvara með að leita eftir undanþágum eða fyrirvörum en íslenskum stjórnvöldum sem eru með einhvern óljósan fyrirvara í greinargerð við þingsályktunartillögu.