149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Einhver misskilningur er á milli okkar þingmanna því að það er ekkert verið að bíða eftir neinu. Við erum að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins með því að innleiða þær tilskipanir sem nú eru teknar upp. Ég held reyndar líka að með því að innleiða aðra orkutilskipunina á sínum tíma höfum við stigið stóra skrefið varðandi það að innleiða þau markmið, væntingar, stefnu og hugmyndafræði sem Evrópusambandið hefur um sameiginlegan orkumarkað. Nú erum við að stíga enn stærra skref.

Á sama tíma, með því að leita sjálf, höfum við séð og prentað út upplýsingar um orkupakka fjögur sem er nátengdur þeim þriðja. Ég mun koma inn á það í minni ræðu hér á eftir. Meðan við höfum ekki okkar eigin orkustefnu er sjálfkrafa verið að taka hér upp orkustefnu Evrópusambandsins. Hún kemur á færibandi í gegnum þessar gerðir.

Það er annað sem mig langar að spyrja þingmanninn út í: Þegar orkustefna okkar mun líta dagsins ljós, er þá ekki eðlilegt að hún taki mið af heildarþörfum samfélagsins, þar á meðal atvinnulífsins? Mig langaði sérstaklega að nefna garðyrkjubændur sem hafa varað við orkupakka þrjú þar sem þeir óttast, eðlilega, raforkuhækkanir. Það hefur sýnt sig að þessi innleiðing hefur fram til þessa hækkað raforkuverð. Á sama tíma er ljóst að ekki verður hægt að bregðast við nema að brjóta reglur sem hægt er að kvarta undan til eftirlitsstofnunar varðandi niðurgreiðslu á rafmagni.

Þannig að um leið og við erum að innleiða sjálfkrafa orkustefnu Evrópusambandsins erum við að takmarka þá möguleika sem við höfum til þess t.d. að setja þætti inn í okkar orkustefnu hvað varðar garðyrkju, svo að dæmi sé tekið.