149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:34]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir þessa hugleiðingu um mismunandi sölumöguleika á markaði. Það er erfitt að bera saman svona dæmi og alls ekki á mínu færi að gera það á einhverjum hagfræðilegum grunni, ef hv. þingmaður hefur ætlast til þess að ég myndi svara því á þann hátt. Það eru svo mörg önnur atriði sem koma þarna inn í dæmið, t.d. þjóðfélagsleg, atvinnusköpun innan lands og skattar af launum o.s.frv. og af framleiðslunni. En kannski er ekki hægt að stilla þessu svona upp fyrir mér til að svara heldur er betra að svara því þannig að auðvitað sé hagstæðara fyrir Landsvirkjun að selja fyrir 140 milljónir en fyrir 100 milljónir. Það er augljóst.

Það sem ég hafði áhyggjur af, og ég hélt að hv. þingmaður væri að spyrja um, er hvað myndi nú Evrópusambandið gera í slíku dæmi, hvað myndi það taka til bragðs ef erlendi aðilinn eða einhver annar myndi kæra slíka verðlagningu á grundvelli þessara tilskipana? Nú hef ég ekki lesið þær í þaula, en ég geri ráð fyrir að það myndi kallast mismunun að selja orkuna á lægra verði til eins en okra svo á næsta manni. Ég tel að það hljóti að vera talin mismunun og yrði þá væntanlega auðunnið mál.

Þá erum við komin að öðru, herra forseti, sem er líka athyglisvert. Ef þetta er framtíðin, sem er frekar augljóst, ef sæstrengur kemur, á þá að reka hér atvinnustarfsemi á einhverjum niðurgreiðslum?