149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Eftir að ég sá á vef Evrópusambandsins í dag að búið væri að birta það sem þar er kallað Clean energy for all Europeans, þ.e. að búið sé að samþykkja þennan pakka, flott nafn á fjórða orkupakkanum, hef ég með aðstoð góðra manna verið að átta mig á því hvað er í þessu öllu saman.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp örstutta þýðingu á kafla sem kallast á enskri tungu Electricity Market Design, þ.e. virkni eða hönnun orkumarkaðarins. Það eru nokkuð mörg og ítarleg atriði í þessu öllu saman ef menn kafa nógu djúpt. Með leyfi forseta segir hér um þessa svokölluðu hönnun orkumarkaðarins:

„Eitt af aðalmarkmiðum með pakkanum Hrein orka fyrir alla Evrópubúa er að uppfæra og breyta strúktúrnum í evrópska raforkumarkaðnum miðað við þær breytingar sem orðið hafa í orkumálum á síðustu árum og munu verða á komandi árum.“

Það er sem sagt langtímaplagg, virðulegur forseti, sem þarna er verið að leggja fram.

Síðan segir:

„Talið er að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum muni aukast frá um 25% upp í rúmlega 50% á árinu 2030 og því þarf að uppfæra reglur Evrópusambandsins til að koma þessum nýja lið inn í regluverkið.“

Svo segir m.a.:

„En þó að sólin skíni ekki og vindurinn blási ekki þarf samt sem áður að framleiða orku til að anna eftirspurn. Bæta þarf markaðina til að mæta þörfum fyrir endurnýjanlega orku og aðrar fjárfestingar, t.d. á orkugeymslum, og til að vega upp á móti mismikilli orkuframleiðslu.“

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Markaðir þurfa einnig að hafa almennilega hvatningu til að virkja neytendur til að tryggja stöðugleika í orkumálum. Til þess að koma þessu af stað hefur Evrópusambandið gert eftirfarandi:“ — þetta er bara undir þessum kafla hér sem heitir Virkni eða hönnun orkumarkaðarins — „uppfært reglugerðir 72/2009 og 714/2009, sett nýja reglugerð um áhættuviðbúnað“ — sem kallast á ensku Risk Preparedness — „og aukið hlutverk ACER.“

Virðulegi forseti. Hér er upptalning úr því sem var birt í dag á því sem við erum að sýsla með hér í kvöld. Það er sem sagt búið að samþykkja og boða uppfærslu og breytingar á reglugerðum 72/2009 og 714/2009, auka hlutverk ACER-stofnunarinnar og setja nýja reglugerð um áhættuviðbúnað.

Það er eðlilegt að spyrja sig, virðulegur forseti, hvort þingmenn vilji nú ekki staldra við og kynna sér hvað í þessum uppfærslum felist. Hvað er það sem verið er að uppfæra og breyta? Um leið og við erum búin að innleiða þessar gerðir hér verður erfitt fyrir okkur að segja að við ætlum ekki að innleiða uppfærsluna sem er tilbúin frá Evrópusambandinu. Er það mögulega þannig að þeir hv. þingmenn sem eru fylgjandi þessu máli séu búnir að fá einhverja kynningu á því hvað er þarna í pípunum, hvað það er sem á að samþykkja og til hvers við þurfum að taka tillit?

Síðan er hér rætt um hvaða ferli þetta fari nú í. Ég les það aðeins:

Nýju reglugerðirnar sem tóku gildi í maí 2019 voru byggðar á Clean Energy for all Europeans pakkanum sem kom út í nóvember 2016. Þær verða birtar í EU Official Journal, lögbirtingablaði þeirra hjá Evrópusambandinu, og munu öðlast gildi sumarið 2019 og með tilskipuninni munu Evrópulöndin fá 18 mánuði til að gera þessar nýju ráðstafanir að landslögum.

Er eitthvað til viðbótar við þetta, annað það sem ég taldi upp áðan, sem við þurfum að taka tillit til? Það er nokkuð sem við hljótum að velta fyrir okkur því að það kemur líka fram að ACER-stofnunin muni fá aukið vægi og aukið vald. Það liggur fyrir að þeim reglum sem við höfum svo miklar efasemdir um að innleiða í dag verður breytt. Það þarf enginn að segja mér, virðulegi forseti, að þeim verði breytt afturvirkt og dregið úr miðstýringunni eða völdum þessara samevrópsku stofnana.