149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, það sem ég fór yfir í minni ræðu áðan er glænýtt, a.m.k. fyrir okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem höfum verið að fjalla um þetta mál. Þetta er hins vegar ekki alveg glænýtt fyrir starfshópnum sem er búinn að vera að vinna af hálfu utanríkisráðuneytisins í þessu máli. Þetta er ekki allt alveg glænýtt fyrir hagsmunasamtökum úti í bæ sem hafa fengið forsmekkinn eða kynningu á þessu og hafa m.a. varað við hluta af fjórða orkupakkanum í umsögnum sínum, eins og Samtök iðnaðarins. Þetta er hins vegar glænýtt fyrir okkur, það er alveg hárrétt, og þetta eru upplýsingar sem við erum að sækja okkur sjálf, ekki sem stjórnvöld hafa rétt okkur.

Reglugerð 347/2013? Ég hef heyrt talað um hana, já. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, þar er enn verið að taka stærri eða meiri skref í átt til miðstýringar.

Það er svolítið erfitt fyrir okkur þingmenn sem fáum ekki stjórnarþingmenn eða þá sem vilja innleiða þennan pakka til viðræðna við okkur til að útskýra fyrir okkur hvort þeir viti hvað það þýðir að fyrir liggi að það eigi að uppfæra á næstu mánuðum þær gerðir sem við erum núna að fjalla um til innleiðingar. Það er ekkert sem segir að við getum ekki staldrað við og frestað málinu meðan við erum að átta okkur á því, svo dæmi sé tekið. Við getum vísað þessu í lögformlega farveginn. Af hverju vilja þingmenn stjórnarflokkanna og stuðningsaðilar þessa máls ekki kynna sér þessi áhrif sem eru svo augljós? Þau liggja fyrir, það er búið að birta þau.