149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er varla hægt að draga aðra ályktun en þá að stjórnarmeirihlutinn og aðstoðarflokkar hans vilji ekki birta þessar upplýsingar af því að þau telja þær líklegar til að draga úr markmiðinu um að ná að innleiða þennan orkupakka og láta það gerast hratt. Þá hlýtur að vera sama skýring á því hvers vegna hv. þingmenn stjórnarliðsins treysta sér ekki til að koma í umræðuna og svara þegar beint er spurt um áhrif þessara breytinga.

Dettur einhverjum í hug að ríkisstjórn sem reynir að keyra þennan þriðja orkupakka í gegn með þeim hætti sem þessi stjórn gerir, og vill helst að umræða um þetta fari fram að næturlagi, myndi skyndilega taka á sig rögg þegar kæmi að viðbótum eða breytingartillögum um þetta og segja: Nei, nei, við vorum tilbúin að innleiða meginmálið en við ætlum ekki að taka við þessum breytingum sem þó lágu fyrir þegar orkupakkinn var innleiddur?

Það væri óneitanlega svolítið erfitt, myndi ég halda, fyrir stjórnvöld að ætla að mæta Evrópusambandinu og segja: Jú, jú, auðvitað vissum við af þessu öllu og hvernig þetta væri að þróast en þegar við ákváðum samt að innleiða ætluðum við bara að innleiða það sem var komið en ekki þær breytingar sem við þó vissum af.

Hvernig telur hv. þingmaður að slíkum rökstuðningi yrði tekið, eins ólíklegt og það er að stjórnvöld myndu yfir höfuð leggja í hann? Eru einhver dæmi sem geta hjálpað til við að svara spurningunni um að fyrri framtakssemi íslenskra stjórnvalda við innleiðingu hafi verið notuð sem rök fyrir því að menn þurfi að halda áfram á sömu braut?