149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans ágætu ræðu þar sem hann kom inn á nokkur atriði sem eru ný fyrir mér, þ.e. að nú þegar séu komnar fram tillögur um breytingar á þessum reglugerðum sem við erum að innleiða, reglugerðum 713 og 714, og að þær séu komnar í ferli. Það eru ákveðnar fréttir fyrir okkur að því leytinu til að þá er verið að auka miðstýringu í orkumálum í Evrópusambandinu og jafnframt á EES-svæðinu, einnig að það sé verið að auka vald ACER umfram það sem við erum að ræða í þeim pakka sem hér er til umræðu. Hann velti fyrir sér hvort íslensk stjórnvöld, herra forseti, komi til með að standa í lappirnar þegar þetta kemur ofan á það sem hér er til umræðu. Munu íslensk stjórnvöld fremur standa í lappirnar þá en núna? Ég ætlaði ekki að spyrja hv. þingmann þessarar spurningar, hvort þau væru líkleg til þess, það var alls ekki ætlun mín en ég spyr hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér í því að núna sé rétti tíminn til að spyrna við fótum og ekki láta þetta hellast yfir okkur miklu lengur eða meira en nú þegar er orðið með tilliti til ýmissa atriða sem við höfum margoft nefnt, eins og sérstöðu orkumarkaðar á Íslandi. Hér er lítill markaður, mikil orka, fyrirtækin í ríkiseigu og dreifikerfið. Er hann sammála mér í því (Forseti hringir.) að það sé núna sem eigi að spyrna við fótum en ekki síðar?