149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög mikilvægt að mínu viti að menn staldri við núna, ekki síst í ljósi þess að það liggur fyrir hvað við munum fá inn á borð til okkar til að kryfja innan ekki svo langs tíma. Það getur vel verið að stjórnvöld hugsi með sér að að það verði komið nýtt kjörtímabil og kannski ný ríkisstjórn sem þurfi að glíma við það, ég hef ekki hugmynd um það, allt tekur þetta sinn tíma hjá Evrópusambandinu. Við getum samt ekki látið eins og málið sé svona einfalt. Það kemur fram í því sem var sett á netið í dag af hálfu Evrópusambandsins að það eigi að uppfæra og breyta nákvæmlega þeim reglum sem hv. stjórnarþingmenn vilja innleiða nú í dag. Það á að breyta þeim og uppfæra þær en samt finnst mönnum þetta ekkert einasta mál. Þeir láta eins og þetta skipti ekki nokkru einasta máli, að þetta sé léttvægt fyrir Ísland. Þetta er að sjálfsögðu ekkert léttvægt því að ef við innleiðum orkupakka þrjú eins og hann lítur út núna innleiðum við þær gerðir sem eru á boðstólum. Við fáum ekki varanlegar undanþágur frá því sem skiptir máli og þá verður ekki hægt að koma eftir einhverja mánuði og segja: Nú þurfum við undanþágur, þetta er of mikið. Stjórnarskráin leyfir ekki að við göngum lengra í þessa átt o.s.frv.

Það verður bara of seint að mínu viti en það getur vel verið að menn vilji taka þann séns. Ég vil það ekki. Mér finnst eðlilegra að kryfja málið í heild úr því að við höfum tök á því. Það væri kannski annað ef við hefðum ekki tök á því, ef það væri ekkert búið að vinna í framtíðinni. En það er aldeilis ekki.