149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég var einnig að velta fyrir mér tilgangi Evrópusambandsins með þessum tilskipunum í ljósi þess að raforkumarkaður í Evrópu er allt öðruvísi uppbyggður en á Íslandi þar sem þar eru mengandi orkugjafar í miklu magni. Tilgangurinn er í sjálfu sér góður. Er hv. þingmaður mér ekki sammála um það? Tilgangurinn er veglegur, að stórauka vægi endurnýjanlegra orkugjafa í Evrópu. Það er tilgangurinn. Og til þess þarf að brjóta ýmsa múra í Evrópu, brjóta niður stórfyrirtæki og einokun, opna nýjar leiðir fyrir dreifikerfið svo hægt sé að láta þessa endurnýjanlegu orkugjafa streyma óhindrað um Evrópu í því augnamiði þá að útrýma hinum óæskilegri. Það sjá allir að þetta er mjög ólíkt því sem við eigum að venjast á Íslandi.

En þetta er tilgangurinn og hann er góður. Þetta á ekki við hér. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji frekar koma til greina að fresta málinu og umfjöllun þess á Alþingi, skoða það betur og taka það svo aftur fyrir í haust, eða hvort þingmaðurinn sé fremur á því að málið verði fellt og fari svo fyrir sameiginlegu EES-nefndina eins og gert er ráð fyrir í samningnum að sé rétta leiðin. Þar yrði leitað undanþágna sökum þess að hér eru aðstæður allt öðruvísi en í Evrópu.