149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég held áfram yfirferð minni yfir fyrirvara norska Stórþingsins við þennan þriðja orkupakka. Ég tel mjög mikilvægt að við skoðum þetta í umræðunni og raunar er alveg stórfurðulegt við lestur þessara fyrirvara og í ljósi þess hvað það skiptir miklu máli í norska þinginu, að við skulum ekki hafa rætt þetta meira eða réttara sagt að stjórnvöld skuli ekki hafa rætt þetta meira þegar þau kynntu þriðja orkupakkann og þingsályktunartillögu til að innleiða hann og raunar algjörlega látið hjá líða að nefna þetta yfir höfuð.

Það kom í ljós í fyrirspurnatíma fyrr í dag að hæstv. fjármálaráðherra virtist varla vera kunnugt um þessa fyrirvara eða innihald þeirra. Því er full ástæða til að rekja þetta hér til að varpa ljósi á eðli málsins og einnig umræðuna í Noregi sem óneitanlega tengist umræðunni hér því að við erum með Norðmönnum þátttakendur í þessu EES-samstarfi og EFTA.

Fimmti fyrirvarinn er svohljóðandi í lauslegri þýðingu: Ákvarðanir um nýjan erlendan sæstreng verða eftir sem áður ákvörðun norskra yfirvalda. Reynslan af tveimur köplum sem hafa verið lagðir eða verið er að leggja skal skoðuð áður en hægt er að taka tillit til nýrra erlendra tenginga.

Þetta er afskaplega merkilegt atriði, þessi fyrirvari, sérstaklega í ljósi umræðunnar á Íslandi um að það kunni að vera hætta á því að Evrópusambandið eða ACER fyrir hönd þess beiti sér fyrir því að lagður verði sæstrengur til Íslands og leitist við að ryðja úr vegi hindrunum fyrir því.

Ástæðan fyrir því að þetta er svona merkilegt í samhengi við Ísland er sú að eins og kemur fram hér er Noregur þegar tengdur þessu evrópska orkuneti, en þrátt fyrir það telja Norðmennirnir ástæðu til að setja inn slíkan fyrirvara. Hvort eru meiri líkur á því, þegar maður kynnir sér út á hvað þessi orkupakki gengur, að Evrópusambandið beiti sér fyrir tengingu við land sem er ótengt eða að Evrópusambandið beiti sér til að fá þriðju tenginguna við land sem búið er að tengja fyrir? Svarið við þessu liggur fyrir vegna þess að meginmarkmiðið er að tengja ný lönd og raunar sérstaklega talað um eyjar, tengja raforkukerfi sem hafa verið einangruð frá stóra kerfinu. Í því skyni er Evrópusambandið tilbúið til að leggja til fjármagn, tilbúið til að fylgjast með framgangi stjórnvalda í þeim löndum sem í hlut eiga og hlutast til um að þau ryðji úr vegi þeim hindrunum sem kunna að vera gagnvart slíkum tengingum. Maður skyldi því ætla að það væru töluvert meiri líkur á slíkri íhlutun Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og hugsanlegri tengingu hingað heldur en gagnvart Noregi og hugsanlegri þriðju tengingu Noregs við raforkukerfi Evrópu. Engu að síður telja Norðmenn mikilvægt að setja þennan fyrirvara þarna inn.

Þá að sjötta fyrirvaranum: Nýir sæstrengir skulu vera þjóðhagslega hagkvæmir og skila arði fyrir samfélagið. Þarna telja Norðmenn mikilvægt að árétta að sæstrengur, hugsanlegur sæstrengur, sé til þess fallinn að skilja eftir arð í norska samfélaginu. Með öðrum orðum, þeir óttast að t.d. einhverjir erlendir fjárfestar kynnu að vilja tengja Noreg og taka ávinninginn af þeirri framkvæmd og að hann yrði ekki eftir í Noregi. Þeir eru með þessu að reyna að verja norska hagsmuni, þá hagsmuni sem Noregur hefur af sinni orkuframleiðslu. Þetta er nokkuð sem margir hverjir hér á landi, þar með talið ríkisstjórnin, virðast hafa verið feimnir við að segja upphátt, að við þurfum að gera ráðstafanir til að tryggja að ávinningurinn, arðurinn, verði eftir í íslensku samfélagi.