149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:17]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að mínu mati alveg hárrétt mat. Það ætti að vera auðveldara fyrir Ísland að leita undanþágna á sínum forsendum en fyrir Norðmenn í ljósi þess, eins og hv. þingmaður nefnir, að Noregur er þegar tengdur, rétt eins og Ísland fékk undanþágu frá jarðgastilskipununum, eða reglugerðunum. Ísland er ekki nú þegar tengt hvað varðar raforku og hefði því allt eins átt að geta fengið undanþágu hvað það varðar. En vegna þess að Norðmenn eru orðnir bundnari við samrunaþróun í Evrópu vegna þessara tenginga þá þurfa þeir kannski að reiða sig á aðkomu Íslands að málinu og það er ekkert að því fyrir okkur að Norðmönnum gefist um leið tækifæri til að fá lausn sinna mála.