149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði megnið af ræðu hv. þingmanns og fannst mikið til koma. Svona korteri áðan en þessi umræða hófst rauk utanríkisráðuneytið til í flaustri, sótti ágætan fræðimann, dr. Carl Baudenbacher, og flutti hingað til Íslands til að segja Íslendingum hversu háskalegt það væri ef þeir innleiddu ekki þennan pakka, þriðja orkupakkann. Nú fylgir þessum ágæta manni mikil virðing og ekkert nema gott um það þó að greinargerð hans sé nokkuð skotin af pólitík líka. Það er bara eins og sumir þeirra lögfræðilegu álitsgjafa sem höfðu áður kommenterað á íslensku sem köstuðu af sér fræðimannshempunni og dómarakuflinum og gerðust pólitíkusar um stund. Það er allt saman mannlegt en það sem mér fannst standa upp úr í því sem þessi ágæti maður hafði fram að færa var á hvaða forsendum hann varaði Íslendinga við því að það gæti verið afar vont ef þeir tækju ekki upp þessa gerð, þ.e. að Norðmenn væru mjög stressaðir og að Evrópusambandið myndi fara í fýlu ef við gerðum þetta ekki.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé að hans mati raunsætt mat á tilurð þess að hinn ágæti fræðimaður kom hingað heim, hvort þessi tilgáta mín sé nokkuð rétt.