149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni sem hefur fylgst með þessari umræðu að þetta mál þarf svo sannarlega á meiri umræðu að halda. Enda hvað höfum við sem höfum verið að reyna að grafast fyrir um eðli þessa máls gert hér? Við höfum grafið upp fyrirvara norska þingsins sem íslenska ríkisstjórnin virtist ætla að fela fyrir okkur. Í gær sáum við glitta í fjórða orkupakkann og þau áhrif sem hann kynni að hafa á Ísland í kjölfar innleiðingar þess þriðja. Og nú má segja að við séum kannski búin að grafa þann orkupakka upp eftir nýjar uppljóstranir hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hér rétt áðan sem eru auðvitað langt frá því að vera fullræddar. Hann hefur upplýst þingið um að nýlokið sé við að ganga frá þessum fjórða orkupakka og er byrjaður að upplýsa okkur um eðli hans. Það leiðir auðvitað af því þá spurningu — (Forseti hringir.) ég bið virðulegan forseta að afsaka, ég gerði mér ekki grein fyrir því að klukkan væri biluð eina ferðina enn.

(Forseti (WÞÞ): Klukkan fór eitthvað fram úr okkur hér, líka forseta, en ég held að þetta hafi allt sloppið til.)