149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá fyrir ræðu.

Ég þakka þingmanninum fyrir vangaveltur hans um þessa stefnubreytingu eða hvað á að kalla það sem virtist allt í einu hafa orðið í málinu þegar það lá fyrir fyrir nokkrum mánuðum að ekki lægi svo mikið á, hægt væri að fresta málinu, væntanlega þá til að kanna betur og byggja betur undir það. Að mínu viti er þetta það stórt mál að betra er að á bak við það séu fleiri þingmenn en færri. Svo virðist vera að drjúgur meiri hluti sé fyrir málinu á þingi en það gæti kannski þegar á hólminn er komið, ekki reynst alveg rétt, því að ég ímynda mér að einhverjir stjórnarþingmenn munu sjá sér færi og taka til fótanna þegar að atkvæðagreiðslu kemur vitandi það að einhverjir minnihlutaflokkarnir, samfylkingarflokkarnir, ætli að hjálpa upp á málið.

En hefur hv. þingmaður einhverjar skýringar á því hvað varð til þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ákváðu skyndilega að reyna að keyra málið í gegn? Ég held að formaður utanríkismálanefndar hafi haldið ljómandi vel á málinu í nefndinni. Það breytir því þó ekki að málið er stórt og hefði alveg þolað meiri tíma. Það er þó ekki við formann nefndarinnar að sakast í því, tel ég. Ég held að meiri hluti nefndarinnar hafi verið tilbúinn til þess að klára málið, nema kannski Miðflokksmenn og fulltrúar Flokks fólksins. Hvað verður til þess að allt í einu er ekki hægt að skoða málið betur?

Nú höfum við bent á að fjórði orkupakkinn er tilbúinn. Við höfum líka bent á að hluti af því sem þar er talið upp að eigi að breyta eru þær gerðir sem við fjöllum um og ætlum að innleiða í dag, það á að fara að breyta þeim eftir nokkra mánuði aftur. Af hverju öndum við ekki aðeins í kviðinn, eins og sagt er, og skoðum málið í heild?