149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er von að spurt sé. Ég á ekki gott svar við því hvað veldur. En það slær mig þannig vitandi það hversu snúið málið var í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, bara út frá því hvernig þingmenn flokksins höfðu tjáð sig á opinberum vettvangi, þá var þetta svona grunsamlega snöggur og afgerandi viðsnúningur í málinu öllu án þess að ég vilji ætla neinum þeirra sem höfðu efasemdir um málið eitthvað illt, alls ekki, og má leiða að því líkur að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu með sjálfum sér að illu væri sennilega best af lokið, að á einhverjum tímapunkti þyrfti að klára þetta árans mál. Það væri þá eins gott að setja undir sig hausinn núna úr því ráðherrarnir teldu sig við vera búnir að finna leið til að ná þessu í gegn á ógnarhraða þannig að sem minnstur sársauki hlytist af fyrir þá sem höfðu efasemdir um málið. En þess utan hef ég ekki séð nein rök koma fram sem halda hvað þennan mikla snögga viðsnúning varðar. Maður verður að horfa til þess að breytingin hafi fyrst og fremst verið þessir meintu fyrirvarar sem komu inn.

Eftir þær umræður sem hér hafa átt sér stað í þingsal undanfarna daga væri virkilega áhugavert að heyra með hvaða hætti þeir þingmenn sem áður höfðu miklar efasemdir gerðust stuðningsmenn, hvernig þeir upplifi fyrirvarana eins og þeir standa núna eftir þá umræðu sem átt hefur sér stað, því að þögnin hefur verið alger frá þeim sem helst rökstuddu (Forseti hringir.) afstöðubreytingu sína með þessum meintu nýju fyrirvörum.