149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er sannarlega spurning sem ástæða er til að velta upp þegar öllum er ljóst hversu stutt er í endurskoðun á þeim gerðum sem hér er verið að fjalla um í þriðja orkupakkanum, við vitum að við höfum tíma til að bíða eftir að sjá heildarmyndina hvað þriðja orkupakkann varðar og hvað er í pípunum hvað fjórða orkupakkann varðar, við höfum tíma til að bíða eftir að leggja þetta allt saman fyrir framan okkur. Ég hef ekki frjórra ímyndunarafl en svo að ég fæ ekki séð hvað það er sem kallar á að klára þetta mál núna vitandi það að við höfum tíma til að geyma það fram á haustið, að minnsta kosti. Eins og hæstv. iðnaðarráðherra sagði, með leyfi forseta, í viðtali við Morgunblaðið, með leyfi forseta:

„Það er aldrei hægt að útiloka neitt um þingmál sem eru í vinnslu.“ — Og var þá að vísa til þess hvenær á endanum þau kæmu til afgreiðslu. (Forseti hringir.) Það má því vel vera að afstaða hæstv. ráðherra sé sú að jafnvel sé hægt að geyma þetta mál enn lengur (Forseti hringir.) en fram á haustið.