149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:52]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er alveg hárrétt að tímapressan er raunverulega engin hér innan lands hjá okkur á Íslandi, en það er alveg morgunljóst að pressan er gríðarlega mikil af hálfu Evrópusambandsins, að þetta mál sé klárað. Hv. þingmaður kom inn á dagsetninguna 23. september en þá ætlar stjórnlagadómstóll Noregs að úrskurða í þessu máli varðandi stjórnarskrárvandann. Nú eru stjórnarskrár okkar og Norðmanna að mörgu leyti líkar og ágreiningurinn snýst um hvort það valdframsal sem í samningnum felst sé það sem þeir kalla „lite inngripende“, með leyfi forseta, þ.e. hvort það sé lítils háttar valdframsal eða meiri háttar eða meira en stjórnarskráin leyfir. Væri ekki rétt að við biðum eftir þeirri niðurstöðu? Það ætti þá að veita okkur ákveðna leiðsögn (Forseti hringir.) í því hvernig við ættum að bregðast við. Getur hv. þingmaður kannski verið sammála mér í því?