149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér finnst mjög áhugavert hvernig hv. þingmaður setti þetta fram og velti fyrir sér hvers vegna fallið hefði verið frá því að fresta málinu, eins og hv. þingmaður rakti ágætlega. Þarna koma fram yfirlýsingar frá utanríkisráðherra og fleirum þess efnis að það væri skynsamlegt að fresta málinu fram á haustið. Þá veltir maður fyrir sér ástæðunum fyrir því sem við höfum ekki fengið að frétta af. Er það hugsanlega IceLink-verkefnið sem mér skilst að við séum enn aðilar að, að það sé erfitt að koma Íslandi út úr því verkefni af einhverjum ástæðum?

Síðan er hugsanlega hægt að velta fyrir sér hvort Brexit hafi haft einhver áhrif á þetta. Lítur Evrópusambandið svo á að það gæti verið slæmt fyrir það ef sýnt þykir að Íslendingar ætli að draga það að ganga frá þessu máli? Að sama skapi gengur allt á afturlöppunum með Brexit. Eru þarna einhverjar tengingar, að það gæti verið slæmt fyrir Evrópusambandið út á við ef þessu máli yrði frestað á Íslandi? Þetta eru vangaveltur sem ég hefði gjarnan viljað fá hugmyndir frá hv. þingmanni með, t.d. í IceLink-verkefninu sem er gríðarlega stórt og mikið verkefni sem við erum aðilar að í gegnum Landsnet og Landsvirkjun. Jafnframt koma mjög stór alþjóðleg fyrirtæki að þessu, t.d. fyrirtæki sem heitir Interconnector Holdings og annað sem heitir National Grid. Þetta eru gríðarlega öflug fyrirtæki og þarna eru miklir hagsmunir undir. Gæti spilað eitthvað inn í ástæðuna að það hefði komið (Forseti hringir.) einhver utanaðkomandi þrýstingur þess efnis að Ísland frestaði alls ekki því að innleiða þetta mál?