149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þekki ekki hvernig á þessum samstarfsverkefnum er haldið, en þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar út varðandi það að óskað hafi verið eftir því að IceLink-strengurinn yrði tekinn út úr heildarverkefninu frá stjórnvöldum eru þeirrar gerðar að ef eitthvert hökt verður þar á mun það væntanlega hafa mikil áhrif á það traust sem er í íslenskum stjórnmálum, á það sem eftir er af því. Ég neita hreinlega að trúa því að slík beiðni hafi ekki verið send nú þegar og mig rámar í að ég hafi heyrt yfirlýsingu ráðherra um að sú beiðni hafi verið send. Þá kemur aftur upp það sjónarmið sem er væntanlega snúið í þessu samhengi öllu, það er ekki átakalaust sem verkefni eins og þetta kemst inn í svona prógramm. Mér er til efs að öflugir aðilar sem koma að verkefni eins og þessu, einkaaðilar, taki því þegjandi að verkefnið sé slegið af út af einhverjum tímabundnum pólitískum óróa á Íslandi, eins og það horfir við sumum.

Ég veit ekki hvernig þessu samstarfi er háttað og hvernig það atvikaðist að þessi IceLink kom inn í þetta prógramm, en það getur varla hafa gerst öðruvísi en í samstarfi þessara erlendu fyrirtækja og Landsvirkjunar og einhverra fleiri og væntanlega að beiðni hins íslenska aðila. Lengi skal manninn reyna en ég trúi (Forseti hringir.) því varla að menn hafi gefið svona afgerandi yfirlýsingar um að óskað hafi verið eftir því að linkurinn yrði tekinn út úr þessu án þess að sú sé raunin.