149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Í umsögn Samtaka iðnaðarins varðandi orkupakka þrjú kemur fram í 7. lið, með leyfi forseta:

„Að gefnu tilefni benda SI að til umfjöllunar á vettvangi ESB er nú þegar fjórði orkupakkinn […] þar sem liggur undir enn víðtækara regluverk en samkvæmt fyrstu orkupökkunum og felur sá pakki í sér breiðari skírskotun til umhverfis- og orkunýtnimála, svo sem orkunýtni bygginga.“

Síðan segir í umsögninni að þar séu undirliggjandi ýmis hagsmunamál sem þurfi að skoða sérstaklega og hafi frekari skírskotun til hérlendra aðstæðna umfram það sem þeir segja að sé varðandi þennan þriðja orkupakka.

Það sem ég hef aðeins áhyggjur af er að mér finnst sem Samtök iðnaðarins hafi ekki séð þá skýru tengingu sem er á milli hvers orkupakka. Við sjáum að þegar orkupakki tvö, þ.e. önnur raforkutilskipunin, var innleiddur var það gert með þeim hætti að Evrópusambandið segir að engin ástæða sé til að veita einhverjar undanþágur frá næstu tilskipun, sem er númer þrjú, vegna þess að það hafi gengið svo vel að innleiða hina. Ef við innleiðum þriðja orkupakkann, eins og gert er ráð fyrir með húð og hári, verður þar af leiðandi erfiðara fyrir okkur að gæta þeirra hagsmuna gagnvart Evrópusambandinu sem Samtök iðnaðarins ræða í umsögn sinni af því að þá verðum við búin að taka enn eitt skrefið inn á þennan sameiginlega orkumarkað.

Þó að Samtök iðnaðarins nefni einungis eitt atriði, þ.e. varðandi orkunýtni bygginga, sem er að sjálfsögðu gríðarlega stórt mál fyrir okkur Íslendinga, eru a.m.k. sjö önnur atriði sem taka breytingum. Ég nefndi fyrr í kvöld að meðal þess sem á að breyta í orkupakka fjögur eru gerðir sem okkur er ætlað að innleiða núna. Við höfum ekki innleitt þær af því að við erum ekki búin að klára orkupakka þrjú. Það eru gerðir sem komnar eru í breytingaferli hjá Evrópusambandinu. Við getum orðað það þannig að við vitum að hluturinn sem við höldum á mun breytast. Hann verður ekki sá sami á morgun og hann var í gær en við ætlum samt ekki að gera neitt í því. Við ætlum ekki að kynna okkur betur af hverju hann breytist. Við ætlum ekki að kynna okkur hvaða áhrif það hefur ef hann breytist o.s.frv. Það finnst mér mjög bagalegt og ég hefði haldið að það væri skynsamlegt af fylgismönnum þessa máls að fara fram á það að fá ítarlega kynningu og krufningu á þeim breytingum sem verða við innleiðingu fjórða orkupakkans.

Annað sem ég hef ekki alveg áttað mig á hvort eigi við um Ísland, það getur vel verið að sá hluti verði undanþeginn en það er samt ekkert sem bendir til þess, er svokallaður áhættuviðbúnaður, á enskri tungu „risk-preparedness“, með leyfi forseta, reglugerð um áhættuviðbúnað orkumarkaðarins krefst þess að löndin í Evrópusambandinu, ef þetta á við okkur á EES-svæðinu, undirbúi plön um hvernig bregðast eigi við hugsanlegri orkukrísu í framtíðinni og komi á fót viðeigandi plani til að koma í veg fyrir slíkt. Nýja reglugerðin krefst þess einnig að Evrópuríkin noti sömu aðferðir við að koma auga á allt það sem hugsanlega gæti leitt til orkukrísu og undirbúi svo áhættuviðbúnaðarplön í framhaldinu. Það gerir það að verkum að ríki munu þurfa að vinna saman sem eitt. Í stuttu máli mun nýja reglugerðin tryggja hámarksáhættuviðbúnað við hugsanlegri orkukrísu.

Nú leikur mér forvitni á að vita hvort þetta muni gilda um Ísland. Hvert verður þá hlutverk Íslands í þessum viðbúnaði við orkukrísu? Munum við geta sett á fót einhvers konar viðbúnað fyrir okkur alveg sér eða munum við þurfa að geta brugðist við fyrir heildina miklu?