149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:15]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna, það er afar áhugaverð hugsun að baki. Eins og ég skildi þetta þá er hv. þingmaður að velta því fyrir sér hversu langt sé hægt að ganga og hvað felist í farvatninu með öllum þessum innleiðingum og breytingum sem síðar geta falist í innleiðingu sem þessari, eins og með reglugerð 347/2013, ef ég man rétt, þar sem einmitt er kveðið á um breytingar á þeim reglugerðum sem fylgja þessari innleiðingu, þ.e. reglugerð um 713 sem er sú sem er hvað umdeildust í þessu. Það hefur að mér vitandi ekki verið rýnt svo að nokkru gagni nemi.

Ég rek augun í það í áliti dr. Carls Baudenbachers, þess góða manns, að ein rökinsemdin sem hann teflir fram fyrir því að við getum ekki haft sérstaka skoðun á þessu máli nú sé sú að Ísland hafi ekki staðið í vegi fyrir þeirri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar að innleiða pakkann í lög EES og það hafi eingöngu krafist stjórnskipulegra fyrirvara og það hafi ekki verið fyrr en í mars 2018, en landið hafi samþykkt nýjan arkitektúr fjármálakerfis Evrópusambandsins sem viðkemur eftirliti byggt á sömu fyrirmynd og aðrar stofnanir ESB í samvinnu við ESA varðandi þriðja orkupakkann. Þarna er algerlega óskylt mál, varðar ekki orkuauðlindir eða sjálfstæði sem slíkt, nýtt sem rökstuðningur (Forseti hringir.) fyrir því að við eigum að innleiða þetta mál.

Hvernig ætlum við að verjast í framtíðinni ef sífellt meiri eftirgjöf verður rökstuðningur fyrir því að halda áfram á þeirri braut?