149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ræðu sem mér fannst mjög athyglisverð og upplýsandi. Ég er á svipuðum stað og sá hv. þingmaður sem talaði á undan í andsvari um samþjöppun valds á sviði orkumála þar sem það er greinilegt að Evrópusambandið ásælist nú þau völd sem verið hafa til staðar í orkumálum í hverri höfuðborg fyrir sig. Það vill nú færa þau undir Brussel. Mér finnst það vera áhyggjuefni ekki síst af því að með þeirri innleiðingu sem við erum að framkvæma hér og tveimur næstu innleiðingum, önnur eru yfirvofandi og hin við sjóndeildarhringinn, sogast Ísland inn í þann pakka.

Ég hef orðað þetta þannig að Evrópusambandið sé að mörgu leyti eins og kóngulóarvefur. Sá sem ánetjast á ekki greiða leið út, eins og við höfum séð með nágrannaland okkar, Bretland.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé á svipuðum slóðum og ég hvað þetta varðar, að hann hafi áhyggjur af þeirri miklu samþjöppun valds sem er greinilega að verða og menn vilja að verði enn þá meiri þannig að orkumál fari í sama far og mjög margir aðrir málaflokkar þar sem svo virðist sem aðildarríki Evrópusambandsins hafi ekki sjálfstæðan vilja lengur heldur sogist allt vald og öll áhrif til Brussel. Mig langar að fá skoðun hv. þingmannsins á því.