149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Já, klárlega hefur það verið stefna og vilji Brussel-systemsins að stuðla að meiri samþjöppun, meiri miðstýringu, á þeim forsendum að reyna að gera sambandið einsleitt, hafa hlutina eins líka og mögulegt er. Ég held því miður — ég að leyfa mér að segja því miður þó að ég sé ekki hrifinn af því að Ísland gangi í Evrópusambandið — að þetta ferli grafi hægt og bítandi undan Evrópusambandinu. Við sjáum það m.a. í Frakklandi að þingmenn eru smám saman missa trúna á að þetta geti gengið áfram með þessu áframhaldi, að völdin fari frá þjóðþingunum, frá ríkjunum sjálfum, inn í eitthvert miðstýrt batterí. Og við erum líka á fullri ferð í þessu hér á Íslandi ef við nýtum okkur ekki þær heimildir sem við eigum til að segja: Heyrðu, stöldrum aðeins við. Þetta á nú ekki við hjá okkur. Það eigum við að sjálfsögðu að gera núna vegna þess að þriðji orkupakkinn og fjórði orkupakkinn eru eins og tvíburar sem fæðast með nokkurra mínútna millibili. Á milli þeirra er gríðarlega sterk tenging og þeir munu fylgjast að, hönd í hönd, alast upp saman, vegna þess að það er í raun það sama sem er að gerast í báðum pökkunum; verið er að auka valdið. Verið er að auka á miðstýringuna. Verið er að tryggja að orka verði meiri verslunarvara. Verið er að tryggja að ríkin fari eftir þeim reglum sem Evrópusambandið setur til þess að hafa stjórn á því sem ég nefndi áðan. Það er það sem felst í þessu. Og það er það sem við þurfum að varast, vegna þess að það er fáum löndum jafn mikilvægt að eiga orku og Íslandi.